Til eru margar lausnir á undirlagi fyrir hross, t.d. bitar, mottur, og safnstíur með ólíkum undirburðstegundum. Mörg efni eru nýtt sem undirburður og verða kostir og gallar mismunandi efna kynntir.
Þegar velja á undirburð þarf að hafa eftirfarandi í huga
- Kostnaðinn við innkaup, mokstur og förgun
- Þarfir hestanna til legu
- Hvernig aðstaða er til geymslu undirburðar
- Hvernig förgun á notuðum undirburði er háttað.
Áhrif undirburðar á leguhegðun hrossa
Sýnt hefur verið fram á að það í samanburðarrannsóknum að hestar leggjast ekki niður á bera steypu ef þeir hafa kost á því að leggjast í sag. Í sömu rannsókn kom fram að munur á legu í hálm og sagi var ekki marktækur (Hunter & Houpt, 1989) . Þessi niðurstaða er staðfest með rannsókn (Thompson, 1995) þar sem tegundir undirburðar hafði ekki áhrif á legutíma hrossa. (Pedersen et al., 2004) fundu hinsvegar út að flöt lega var tvöfalt meiri á hálmi en á sagi.
Áhrif fóðrunar
Eiginleikar þess fóðurs sem hrossin éta hefur áhrif á það magn vatns sem hrossin þurfa að drekka og þar af leiðandi hversu mikið hann lætur frá sér af vökva. Rannsókn Ragnarsson & Lindberg, 2008 á fóðurgildi Vallafoxgrass leiddi í ljós að hland frá hestunum minnkaði eftir því sem grasið var seinna slegið. Var mikill munur á hlandi frá hestunum eftir slátturtíma grassins, þegar fóðrað var snemm slegna grasið sem var tilvalið til þess að mynda grunn fyrir hesta í mikilli þjálfun létu hestarnir frá sér 14 kg á móti 6,6 á þriðja slátturtíma og 7,6 á fjórða slátturtíma sem var hey sem myndar góðan grunn í viðhaldsfóðrun hrossa.
Í rannsókn framkvæmdri á Hvanneyri 1990-1991 á hrossum bundnum á bás sem birtist í fjölriti þá bændaskólanum á Hvanneyri kom í ljós að hestar fóðraðir á þurrhey (81% þurrefni) væru hreinni en þeir sem fóðraðir væru á þvalara heyi (53% þurrefni). Var það talið vera vegna þess að þeir skítur úr hrossum á þurrheyi var með meiri þurrefnisprósentu en úr hrossum á þvalara heyinu.
Geymsla
Ólíkar tegundir undirburðar kalla á misstórt geymslusvæði. Þegar hálmrúlla er leyst í sundur í heilu lagi má gera ráð fyrir að hún auki rúmmál sitt til muna, þannig að gera má ráð fyrir að sundurtekin rúlla taki allt að 9 m³.
Hrossatað nýtist ágætlega sem áburður á tún eða úthaga einn og sér en þarf líklega að fá að brotna niður í nokkra mánuði til þess að nýtast sem áburður ef undirburður er komin saman við. Eins og gefur að skilja er mismikið af magni sem kemur sem úrgangur eftir því hvaða undirburður er notaður. Þannig þurfa hálmnotendur meira pláss heldur en sagnotendur.
Geymsla á undirburði hefur áhrif á þurrefnisprósentu hans, vegna þess að þurr undirburður tekur til sín raka úr umhverfinu. Þannig getur þurr undirburður aukið rakaprósentu sína ef hann er geymdur í rakri geymslu og þannig minnkað getu sína til þess að draga til sín raka þegar hann er síðan notaður. Hafa verður það í huga að efni sem er minna þurrefni en 80% getur skapað eldhættu.
Vel þekkt er að eldar kvikni í ornuðu heyi og getur þetta þetta líka átt við ef hálmur eða sag er geymt og rakastig í undirburðinum er undir 80 %. Góður siður er að fylgjast vel með heyi og undirburði sem geymt er innanhúss, því oft myndast myglublettir í kringum bleytu í undirburði, eða hitamyndun getur farið af stað.
Áhrif á umhverfi hesthúsins, að inna og utan
Undirburður hefur áhrif á loft í hesthúsum, mismunandi tegundir taka til sín mismikið af efnum sem annars fara út í umhverfið. Beinast spjótin aðallega að ammóníaki sem er afurð niðurbrots af köfnunarefni (N) úr þvagi. Köfnunarefni er afurð sem líkaminn tekur úr próteini, próteininnihald fer minnkandi eftir því sem seinna er slegið. Eins ber að hafa í huga að oft eru fóðurblöndur próteinríkar.
Þó svo að prótein getir aukið magn hlands og ammóníaks ber að hafa það í huga að það er mikilvægt fyrir hesta, sérstaklega hesta sem eru í mikilli og erfiðri þjálfun.
Mikið magn af ammóníaki í lofti veldur hvimleiðri lykt, ásamt því að vera slæmt fyrir hestanna. Reglugerð um aðbúnað hrossa kveður um að magn ammóníaks í lofti megi ekki vera meira en 10 ppm (0,001% í andrúmslofti).
Undirburður tekur misjafnlega til sín ammóníak eins og sjá má í töflu 1. Þetta þarf að hafa hugfast með tilliti til loftræstingar.
Tafla 1. Samanburður á upptöku ammoníaks mismunandi undirburða |
Mór |
100% |
Lín |
76% |
Sag |
64% |
Hampur |
60% |
Tætt dagblöð |
52% |
Spænir |
44% |
Hálmur |
4% |
Heimild: (Airaksinen et al., 2001)
|
Rakadrægni og magnþörf
Kostnaðarþátturinn hefur mikil áhrif á það hvaða undirburðartegund verður fyrir valinu. Til þess að meta það magn sem nauðsynlegt, þarf að gera sér grein fyrir því hve mikil rakadrægni viðkomandi undirburður hefur. Hægt er að mæla hámarksrakadrægni með því að mæla hversu mikið undirburður þyngist við það að vera gegndreypa í vatni. Í töflu 2 er rakadrægni undirburðar í mismunandi athugunum.*ósamræmi er nokkuð á milli aðferða.
Tafla 2. Rakadrægni mismunandi tegunda af undirburði í kg af vatni á móti kg af 90% þurrum undirburði |
Bygg hálmur |
2,0 |
Sag (harðviður) |
1,5 |
Sag (úr mýkri viði) |
2,5 |
Spænir (harðviður) |
1,5 |
Spænir (úr mýkri viði) |
2,0 |
Tætt dagblöð |
9,0 |
Mór |
10,0 (*1,6) |
Kókoshýði |
3,3 |
Heimildir: Kains et al., ( 1997),Wheeler, (2006); Raymond, (1996), Molnar, S. & Wright, B. (2006). |
Niðurstöður úr könnun vegna B.Sc. 90 verkefnis við Lbhí veturinn 2006 leiddi í ljós að meðal sagnotkun í safnstíum var 2,1 kg á hross á dag. En þessi sagnotkun var allt upp 4,2 kg á hross á dag. Þá hafði aukin sagnotkun jákvæð áhrif á hreinleika hrossanna (Sigtryggur Veigar Herbertsson, 2006).
B.Sc. 90 verkefni við Lbhí leiddi það í ljós að vatnsull hefur mikil áhrif á sagnotkun og að helmingsminnkun er á spænisnotkun ef notast er við hita í stíugólfi miðað við að hitastigi sé haldið 2°C meiri en lofthiti (Sigríður Ólafsdóttir, 2008). En hafa ber í huga að kostnaðurinn við að kynda undir saginu var meiri en sá sparnaður sem var að minnkun á sagi.
Atriði sem hafa áhrif á uppgufun úr undirburði
- Magn raka í loftinu: Eftir því sem rakastig í lofti er hærra því minna gufar upp af raka úr stíunni.
- Magn annara efna í loftinu: Loftmólikúl taka aðeins við ákveðna magni af aukaefnum svo mikið ryk í lofti minnkar uppgufun.
- Loftskipti yfir stíugólfinu: Ef loftskipti eru aukin yfir stíugólfi eykst uppgufun úr stíunni.
- Hitastig undirburði sem gufa á upp úr: Eftir því sem hitinn á rakanum í stíunni er meiri því örar gufar hann upp.
- Stærð flatar sem gufar upp úr: Eftir því sem flöturinn með bleytu er stærri því örar gufar hún upp.
- Lofthiti í hesthúsinu: Loftmólíkúl geta tekið ákveðið magn af raka til sín, þau hafa ákveðna þyngd sem breytist ekki en rúmmál þessara mólíkúla eykst við aukin hita, þannig geta þau tekið til sín meiri raka.
Heimildarskrá
Airaksinen, S., Heinonen-Tanski, H., & Heiskanen, M. L. (2001). Quality of different bedding materials and their influence on the compostability of horse manure. Journal of Equine Veterinary Science, 21(3), 125-130.
Bjarni Guðmundsson og Ingimar Sveinsson. (1992). Hrossahey - þurrt eða þvalt? Samanburður á súgþurrkuðu heyi og heyi úr rúlluböggum handa hrossum. Fjölrit nr. 65. Bændaskólans á Hvanneyri, 14 bls. Sótt þann 19.11.2008 af vefslóðinni http://www.landbunadur.is
Hunter, L., & Houpt, K. A. (1989). Bedding Material Preferences of Ponies (Vol. 67, pp. 1986-1991).
Kains, F., Lovell, B., Payne, M., & Tremblay, R. (1997). Livestock Bedding Alternatives. Sótt þann 28.10, 2008, af vefslóðinni http://www.omafra.gov.on.ca/english/environment/facts/97-029.htm
Molnar, S. & Wright, B. (2006). Evaluating performance of several horse beddings. Sótt þann 19.11, 2008, af vefslóðinni http://www.omafra.gov.on.ca/english/livestock/horses/facts/06-105.pdf
Sigríður Ólafsdóttir (2008). Notkun hitalagna í hesthúsgólfum. B.Sc. ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Sigtryggur Veigar Herbertsson (2006). Stöðumat á aðbúnaði hesta á húsi. B.Sc. ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Pedersen, G. R., Søndergaard, E., & Ladewig, J. (2004). The influence of bedding on the time horses spend recumbent. Journal of Equine Veterinary Science, 24(4), 153-158.
Ragnarsson, S., & Lindberg, J. E. (2008). Nutritional value of timothy haylage in Icelandic horses. Livestock Science, 113(2-3), 202-208.
Raymond, S. (1996). Thirsty bedding. Sótt þann 28.10, 2008 af vefslóðinni http://www.equiworld.net/uk/horsecare/stabling/thirstybedding.htm
Thompson, K. N. (1995). Alternate Bedding Materials for horses. Equine Practice, 17(1), 20-23.
Wheeler, E. F. (2006). Horse stable and riding arena design (1 ed.). Ames, Iowa: Blackweell publishing.