Átaksverkefni um aðbúnað hrossa og hönnun hesthúsa

Hálmur


Á Íslandi er notast aðallega við bygghálm (barley straw), bygg er núna ræktað í flestum héruðum landsins með ágætum árangri. Kúa og sauðfjárbændur hafa nýtt sér í einhverju mæli hálm sem undirburð, kúabændur nota þetta aðallega undir yngri kvígur og kálfa en þó eru einhverjir sem nota þetta fyrir mjólkandi kýr í svokölluðum hálmdýnufjósum. Sauðfjárbændur hafa líka notað hálminn sem undirburð með góðum árangri undir sínar skepnur.

Þegar kemur af því að bera saman hegðun hrossa eftir undirlagi kemur í ljós að þeir kjósa heldur að liggja þar sem hálmur er notaður sem undirburður frekar en þar sem sag er notað (Pedersen, et.al. 2004). Þar sem korn uppskera er brigðul á Íslandi kemur fyrir að kornið er þreskt of snemma sem þýðir að hálmurinn nær ekki fullum þroska og trénar ekki nægjanlega vel og er hirtur ennþá aðeins grænn og gómsætur. Eins ber að nefna að hálmur sem hirtur er í vætutíð er ekki eins þurr og hann þyrfti að vera til þess að nýtast vel sem undirburður, eins getur hitnað í opnum rúllum af of blautum hálmi. Myglumyndun getur einnig átt sér stað í blautum hálmi sem getur valdið ertingu í öndunarfærum hestanna eða í verstu tilfellum öndunarfærasjúkdómum.

Íslenski hesturinn var hér fyrr á öldum látin meira og minna ganga á guð og gaddinn, og hefur þann hæfileika að geta nýtt sér að einhverju marki sinu til átu. Líkt og sina er trénað gras þá er hálmur trénuð byggplanta, sem ber að hafa í huga þegar notast er við hálm. Þess vegna er mikilvægt að gefa hrossum hey það reglulega að þau freistist ekki til þess að éta hálminn.

Hálmur er talinn einkar góður til þess að koma í veg fyrir fóðrunartengda húslesti eins og t.d. rop. Ef að hálmur er í stíum getur hross sem finnur til löngunar til þess að éta án þess að fóður sé til staðar fengið útrás fyrir átið á hálminum.

Kostir:
  • Ódýr þar sem hann er til staðar
  • Hestum líður mjög vel á hálmdýnum
  • Hægt að geyma úti ef hann er plastpakkaður
Gallar:
  • Mjög stórar og plássfrekar einingar
  • Nýtist ekki eins vel og aðra tegundir
  • Getur verið mjög blautur ef hann er hirtur í vætutíð
  • Ef hann er hirtur blautur getur hann innihaldið myglu
  • Getur valdið hrossasótt ef hann er étin ótæpilega sérstaklega ef hann er myglaður
  • Ef hann er hirtur áður en hann er fullþroskaður er hann étin ótæpilega
  • Uppsog af ammóníaki er lítið, nauðsynlegt að loftræsting sé góð
Heimildarskrá

Pedersen, G. R., Søndergaard, E., & Ladewig, J. (2004). The influence of bedding on the
            time horses spend recumbent. Journal of Equine Veterinary Science, 24(4),
            153-158.

 


Hross í hollri vist
Bútæknihús Lbhí
www.hesthus.is
hesthus@hesthus.is