Átaksverkefni um aðbúnað hrossa og hönnun hesthúsa

Loftræsting hesthúsa

Rannsóknir á hrossum og reynslan hefur sýnt að hross þrífast mjög vel við lágt hitastig og jafnvel hörkufrost ef fyrir hendi er þurrt og trekklaust legusvæði. Í öllum vistaverum húsdýra er nauðsynlegt að hafa góða og rétta loftræstingu, en það atriði er það sem oftast misferst í byggingum hesthúsa. Er það reynsla okkar að þó að loft á fóðurgangi sé gott þá er það sjaldan raunin þar sem loftræstingar er mest þörf eða inn í stíunum.

Hvers vegna að loftræsta ?

Hross framleiða hita, raka og loftegundir sem hafa neikvæð áhrif á heilbrigði þeirra. Varmaframleiðsla hrossa er um 455 wött á klukkustund og vatnsframleiðslan er í kringum 1,5 desilíter á klukkustund. Þrátt fyrir að hross þoli kulda almennt mjög vel, sérstaklega íslenski hesturinn eru hesthúseigendur í ríku mæli að loka húsum til þess að auka í þeim hitastig.

Ef hesthúseigendur bregða á það að loka húsum sínum og hita þau, safnast upp óæskilegar lofttegundir sem eru ammóníak (NH3), koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S).

Hækkað hitastig hefur þau áhrif á vöxt hvers konar óværu að hún magnast mikið.

Það eitt að hækka hitastig með því að loka húsinu veldur því að rakastig hækkar, þar sem rakinn er einnig lokaður inni. Of þurrt loft getur þó haft neikvæð áhrif á öndurfæri þar sem slímhúð þornar, bakteríur og vírusar fá þannig betra umhverfi til að dafna.

 

Lögmál loftræstingar

Áður en farið er lengra í því að fjalla um loftræstingu eru nokkrir hlutir sem nauðsynlegt er að hafa í huga.

·         Rakastig leitar að jafnvægi í umhverfi sínu (þurrara loft dregur í sig raka úr rakara lofti þar til jafnvægi er náð)

·         Þegar loft hitnar þenst það út (intercooler í bílum vinnur með þennan eiginleika lofts nema í því tilfelli er loftið kælt til þess að minnka rúmmál þess og þannig komast fleiri loftmólikúl að vélinni)

·         Þegar loft hitnar stígur það upp (loftbelgir vinna á þessum eiginleika loft en við það að auka rúmmáls sitt án þess að þyngjast er loftið í raun að léttast)

·         Samhengi er á milli hitastigs og getu lofts til þess að halda í sér raka (heitara loft getur haldið í sér meira af raka en kaldara loft)

·         Rakara loft er léttara en þurrt loft (já þetta er oft erfitt að sætta sig við en vatn er 18,02 gr/mól á móti 28,57 gr/mól hjá andrúmslofti við konstant aðstæður)  

Loftskipti

Til þess að ná að loftræsta húsin nægjanlega þarf að endurnýja loftið í húsinu og er tala um loftskipti í þeim efnum.  Ætla má að loftskipti í hesthúsum fara frá lágmarki 30 upp í 250 rúmmetra á klukkustund. Við það eitt að fá endurnýjað loft inn í húsið lækkar hitastigið í húsinu en einnig lækkar rakastigið inn í húsinu þar sem hitastig inn er meira en úti í öllum tilfellum, vegna varmaframleiðslu hrossanna. Þannig getur loft með 100% rakastigi samt nýst ágætlega í loftræstingu á hesthúsum svo lengi sem hitastigmunur er einhver á kaldara útiloftinu og heita inniloftinu.

  

Leiðir til loftræstingar

Til eru fjórar leiðir til þess að loftræsta hesthús.

 

Hvað gerir kerfið ?

Hvernig vinnur það ?

Hvað þarf að hafa í huga ?

Undirþrýstingskerfi (vélrænt)

Sogar loft út úr hesthúsinu

Vifta(ur) blása lofti út úr húsinu, við það myndast undirþrýstingur sem sogar ferskt loft inn í hesthúsið.

Kerfið vinnur ekki rétt ef að hurð eða gluggi er opnaður, þá er loftræsing mest í kringum þessi op.

Undirþrýstingskerfi (óvélræn – náttúruleg loftræsting)

Sogar loft út úr hesthúsinu

Vinnur eins og lýst er að ofan nema í stað viftu er hæðarmismunur á loftopum og úttaki notaður til þess að knýja kerfið. Stjórnkerfi þarf til þess að stýra opnun á loftopum.

Kerfið vinnur ekki rétt ef að hurð eða gluggi er opnaður, þá er loftræsting mest í kringum þessi op.

Kerfið hentar ekki í smærri hesthúsum.

Yfirþrýstingskerfi

Blæs lofti inn í hesthúsið

Vinnur öfugt við undirþrýstingskerfi, þ.e. lofti er blásið inn (líkt og í bílum). Hægt að koma fyrir hitaelementi sem hitar lofti áður en því er blásið inn.

 

Nauðsynlegt er að leiða loftið réttar leiðir með stokkum. Litlu skiptir hvar loftið fer út. Opnar hurðir og gluggar hafa mjög lítil áhrif á kerfið.

Jafnþrýstingskerfi

Með því er jafnmiklu blásið inn og sogað er út

Tvöfalt fleiri viftur, kostnaður og hávaði miðað við hin kerfin, þar sem bæði er blásið inn og út.

Mjög auðveld að stýra þessari gerð af kerfum, en hávaði og orkueyðsla mikil.

 

Öll þessi kerfi hafa kosti og galla og eru ekki einföld í hönnun og uppsetningu. Það eina sem er sameiginlegt og er grundvöllur í allri loftræstingu, er staðsetning og gerð loftinntaka. Staðsetning loftinntaka er það sem oftast misferst í loftræstingu hesthúsa. Ef þau á annað borð eru til staðar í hesthúsum þá eru þau oftast staðsett þannig að þau ná ekki að loftræsta stíurnar nægjanlega.

Nauðsynlegt er að loftgeislinn (leið ferska loftsins um húsið) sé þannig að hann nái hringrás í húsinu. Geislinn á að koma inn með nægjanlegum krafti til þess að hann fari vel inn í húsið áður en hann dettur ofan í legusvæði hrossanna, þannig nær hann að blandast og hitna áður og hefur þannig minni áhrif á hrossin. Eins hefur reynst ágætlega þar sem kjallari er undir hesthúsum að soga loft inn að ofan og út í gegnum kjallarann, en hafa ber í huga að þá er nauðsynlegt að taka loftið inn um stokk til þess að dreifa því rétt um húsið. 

Undirþrýstingskerfi. Loftið tekið inn um loftop og loftræsir stíur áður en það er sogað út. Yfirþrýstingskerfi. Loftinu eru blásið inn um loftstokk sem liggur eftir endilöngu húsinu.


Of algengt er að loftop eru staðsett of neðarlega, geislinn brotni á ljósum, bitum eða loftop eru of stór þannig að loftgeislinn lekur inn í húsið þannig að mestur kuldi verður í stíunum og engin loftblöndun eða loftræsting á sér stað. Opnanleg fög eru mjög lakur kostur sem loftinntök og ber að forðast notkun þeirra til loftræstingar. Raunar er ekki neinn tilgangur með opnanlegu fagi í glugga á hesthúsi. Opnanleg fög eru oftast of neðarlega og opnast þannig að geislinn brotnar of snemma, eða eru of stór. Betra er að taka loftið inn um loftop sem eru þá í heppilegri hæð, nægjanlega stór og fjöldi þeirra passlegur. Ef að í húsinu eru sperrur og/eða bitar neðan í lofti sem brjóta loftgeislan þarf að klæða þá þannig að loftflæði verði sem minnst hindrað.

Slæmt er ef að loftgeislinn lekur inn t.v. eða loftgeislinn brotnar á bita í lofti t.h.

Reynst hefur ágætlega að taka loft inn að ofan og út í gegnum kjallara, huga þarf vel að dreifingu ferska loftsins eftir endilöngu húsinu

Hvað hentar þínu húsi ?

Hesthúslögun

Hafa í huga

Forðist

Þar sem stíur liggja nærri veggjum og lofthæð er eðlileg

+Undirþrýstingkerfi virka mjög vel, ef að loftop eru hæfilega stór og nægjanlega mörg til þess að loftgeislinn nái að loftræsta allt húsið

- Forðist það að nota opnanleg fög í stað loftopa, þar sem loftdreifing verður ekki jöfn með notkun þeirra

Langt frá útvegg að stíu

+Loftstokkur sem færir ferska loftið nær stíunni

+Yfirþrýstingkerfi hentar best með stokkum og blæs þannig loftinu á rétta staði innan hesthússins

- Forðist að nota einungis loftop við útveggi

- Náttúruleg loftræsting virkar ekki

- Undirþrýstingkerfi vinnur ekki eins vel með stokkum og yfir- og jafnþrýstikerfi

Loftið er tekið niður

 

+Yfirþrýstingur  virka vel í húsum sem eru lág til lofts, huga þarf sérstaklega að loftgeislanum

- Hefðbundið undirþrýstingkerfi virkar illa þar sem loftdreifing er oft erfiðari með svoleiðis kerfum

Hátt til lofts

+ Náttúruleg loftræsting gæti hentað í húsið ef að aðrar forsendur eins og staðsetning stíanna er þannig.

 

- Forðist að láta lofthæðina eina nægja. Mikil lofthæð kemur ekki í stað loftræstingar því að lítil loftræsting á sér stað í stíunum sjálfum

 

 


Hross í hollri vist
hesthus@hesthus.is