Átaksverkefni um aðbúnað hrossa og hönnun hesthúsa

Samkvæmt reglugerð er lágmark að gefa hrossum tvisvar yfir daginn, og má ekki líða meira en 14 tímar á milli gjafa. Þetta er nú sjálfgefið fyrir þá sem hafa grunnþekkingu á meltingu einmaga dýra. Hross eyða miklum tíma á dag við á beit og eru meltingarfærin þannig hönnuð að nauðsynlegt er að fái oft og lítið í einu. Þó er það þannig að ef að hrossum á húsi er gefið mjög oft þá spennast þau upp í hvert skipti sem að einhver umferð er í húsinu og getur það verið nóg til að setja af stað fóðurtengda húslesti eins og t.d. rop. Það er því mælt með að gefa þrisvar á dag þ.e. á morgna, hádegi og kvöldi. Það er líklega mjög gott ef hægt er að koma því við að inn í hlöðu/fóðurgeymslu fari enginn nema þegar verið er að gefa svo að hrossin eigi ekki von á gjöfum. Hross eru nefninlega fljót að tengja umgengni um einhverja hurð og fóðurgjafir. Besta staðsetning hlöðu er í þeim enda sem enginn umferð á sér stað.

Til eru nokkrar gerðir af fóðrunartækni:

Gefið í stalla.
Gefið á fóðurgang.
Gefið í net.
Gefið á stíugólf.
Sjálfvirkar gjafir.

Gefið í stalla.

Mælt er með því að hæð í fóður- og vatnsdalla sé u.þ.b. 0,5 - 0,6 x hæð á herðar, = 70 - 80 cm fyrir fullorðin hross, eitthvað minna fyrir folöld og tryppi. Flestir hesthúseigendur hafa þessa fóðurdalla mun hærri sem leiðir til þess að hrossin nái illa til að éta (þeim líður illa við átið) og moki heyinu á gólfið og éti þaðan. Gott er að hafa í huga að eftir því sem stíur eru minni þá aukast líkur á því að hross skíti í dallanna. En lítið mál er að hreinsa skítin úr döllum ef hrossin skíta í þá. Eitthvað hefur verið um það að hross séu að skera sig á döllum eftir að hafa verið að klóra sér á þeim og þeir brotnað, þess vegna er hægt að mæla með notkun plastdalla sem gefa undan í stað þess að brotna. Ef að dallar eru það neðarlega að þeir ná ekki að klóra sér á lendinni á þeim minnkar þessi hætta.

Alltaf er hætta á að hross sparki í dalla og annað í stíunum, ef að hrossið er í andlegu jafnvægi er líklegt að spörkin séu vegna metings við hest í aðliggjandi stíu. Vegna þessa er best að staðsetja dalla ekki í horn því þá aukast líkur á að þeir verði fyrir spörkum. 

Fóðurdallar þurfa að rúma það heymagn sem gefa á hverju sinni. Heymagn fer eftir gæðum heys, þurrefni, og fóðurástandi hrossa. Þess ber að geta að flestir dallar sem eru seldir eru í hestabúðum eru fyrir kjarnfóðurgjafir í húsum með heitblóðs- eða þaðan af stærri hesta.


Dæmi um góða og einfalda hönnun.

Gefið á fóðurgang. Opið fram á fóðurgangin þarf að vera 30 cm. Ef gefið er á fóðurgang skal hafa það í huga að hross standa ekki með framfætur samsíða þegar þeir bíta gras. Þessi staðreynd og það að hafa heyið nokkuð framan við hrossin leiðir til þess að gólfið sem gefið er á þarf að vera töluvert hærra en stíugólfið. Þó svo að þetta sé ekki að fullu rannsakað höfum við verið að mæla með að þessi hæðarmunur sé a.m.k. 10 cm. Alltaf er hætta á því að hross bólgni á bógum við að teygja sig eftir stráum, þar sem þeir setja fullan þunga á innréttingar. Ef nota á fóðurganginn sem gönguleið er mjög gott að vita að hross ná c.a. 90 cm fram á ganginn.

Gefið í net. Að gefa í net er talið mjög gott fyrir hross til þess að lengja áttíma þeirra (að hafa hross ein í stíu lengir einnig áttíma). Einnig er þægilegt að halda utan um magn gjafa með því að vigta hvert net fyrir sig. Þess vegna eru margir sem halda hross með húslesti eða aðra fóðrunartengda kvilla sem kjósa að nota net til þess að gefa í. Ókostir eru þó nokkrir ef að net eru höfð neðarlega þá er alltaf hætta á að hrossið festi skeifu eða löpp í netinu með tilheyrandi slysahættu. Ef netin eru hengd hátt til þess að forðast slys, er líklegt að töluvert að ryki fari ofan í öndunarfæri hrossanna úr heyinu. Einnig er nokkuð tímafrekt að fylla netin fyrir hvert mál.

Gefið á stíugólf. Einhverjir eru á móti því að gefa á stíugólf, vegna ormasmits og bara almennrar snyrtimennsku. Það er góð regla fyrir alla hesteigendur að stíugólfin eiga að vera það hrein að óþarfi sé að skammast sín fyrir að gefa á þau. Hross eru hvort sem er alltaf að róta í stíugólfinu, og er nokkuð um að hross séu að éta sag og hálm hvort sem efnið er kögglað eða ekki. Fyrir utan hugsanlegt aukið smitálag og verri nýtingu á heyinu því einhverjir moka því undir sig, er þetta eðlilegasta staðan fyrir hrossin að éta og þetta gefur þann möguleika að dreifa heyinu á nokkra staði innan stíunnar.

Sjálfvirkar gjafir. Eitthvað er um að hross fái gjafir úr stöllum sem gefa sjálfir, framleiddir eru stallar á Íslandi, en til eru einnig stallar framleiddir erlendis sem gefa allt upp í sex sinnum. Lítið er rannsakað um áhrif á hrossin, en ég leiða má líkum að því að þessi sjálfvirkni sé mjög góð fyrir meltingu hrossanna.

Brynning

Vatnsdallar. Ef að húsið er vel loftræst er hætt við að hitastig falla stundum undir frostmark, því skal gera ráðstafanir til þess að hindra frostsprungur á vatnslögnum. Þessi frostvörn virkar þá líka á haustin ef að engin hross eru á húsi til þess að hita það upp. Til eru margar lausnir á því að halda vatni frostfríu.

Rafmagnshitun. Þar er hitaþráður annaðhvort þræddur inn í eða utan á vatnslagnir. Sírennsli, þar sem vatn er nægjanlegt er hægt að seríutengja vatnsdalla þannig að vatnið staðni ekki í þeim og frjósi síður. Ef vatn er af skornum skammti er hægt að hafa sírennsli þannig að forðabúr og dæla er höfð í frostfríu rými hússins.

Einnig eru til dallar þar sem lagnir eru hafðar fyrir neðan frost og rafhitun er í skálunum.

Vafalaust eru til fleiri leiðir en hér eru taldar upp, en lausnir á þessu hafa verið til í fleiri tugi ára