Átaksverkefni um aðbúnað hrossa og hönnun hesthúsa

Stöðumat á aðbúnaði hrossa á húsi

Samantekið efni úr

B.Sc. ritgerð vorið 2006


Höfundur ritgerðar:

Sigtryggur Veigar Herbertsson

sigtryggurvh@hesthus.is

sigtryggur.veigar@gmail.com

 

Hönnun hesthúsa og nærumhverfis hesta hér á landi hefur á undanförnum árum verið mikið til borin uppi af reynslu hestamanna. Þróun í nærumhverfi hesta hefur verið þó nokkur og er nærtækast að nefna í því sambandi breytingar á básahesthúsum yfir í stíuhesthús. Veturinn 2006 var gerð úttekt á nærumhverfi hesta á húsi og var megin tilgangur þeirrar athugunnar að reyna að fanga þann breytileika sem er tengdur aðbúnaði hesta á húsi á Íslandi. Einnig voru hesthúsaeigendur spurðir um hvaða breytingar þeir vildu gera á húsum sínum.  Rannsóknin var grunnur að Bs-90 lokaverkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands. Skoðuð voru í heildina 40 hesthús á Norður- og Vesturlandi ásamt Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjavík í febrúar og mars 2006.

 

Stíurnar

Meðalaldur húsanna sem skoðuð voru var 20 ár og rúmuðu að meðaltali 15 hesta.  Innréttingar voru alla jafna yngri en húsin en meðalaldur þeirra var 8 ár, trúlega vegna skiptingar á básum yfir í stíur.  Af þeim 570 hestum sem voru í húsunum var 89% hestanna í stíum.

 

Undirlag fyrir hestanna var mjög mismunandi og má þar nefna drainmottur í 8 húsum, gúmmíbitar í 4 húsum og timburgólf í 5 húsum en algengast var að notast við safnstíur sem var í 19 húsum. Það að hafa hita í safnstíum er greinilega að ryðja sér til rúms og voru 29% hesthúsa smíðuð eftir 2001 með hitalagnir undir stíugólfi, en ekkert hús eldra en það.

 

Þá kom í ljós að stíustærð er marktækt stærri í yngri húsunum en ekki fannst  marktækur munur á stíustærð þrátt fyrir endurnýjun innréttinga í eldri húsunum.  Hús smíðuð eftir 2000 stóðust öll stíustærðir sem reglugerð um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa (nr. 132/1999) segir til um.  Hinsvegar kom í ljós að í eldri húsum þar sem innréttingarnar höfðu verið endurnýjaðar eftir 2000 var 50% húsanna með stíur minni en  áðurgreind reglugerð segir til um.

 

Minnsta vegghæð í stíu var 1,2 m en mesta vegghæðin var 2,29 m. Hæð veggja á milli stía var að meðaltali með rimlum 1,62 m sem gerir hestum erfitt fyrir að bíta hvorn annan en í leiðinni þá minnkar þetta möguleika þeirra á jákvæðum samskiptum (mynd 1).

Mynd 1 Meðal vegghæð að meðtöldum rimlum í athuguninni

 

Minnsta mælda stía reyndist vera 2,2 fermetrar en sú stærsta 6,7 fermetrar. Hestar í einshestastíum höfðu flesta fermetra fyrir sig en á móti kemur að stíurnar voru oft þröngar (159 cm).

 

Hestafjöldi í stíu

Flatarmál á hest

Staðalfrávik

Lengd

Breidd

Hlutfall

Einn

4,4

0,88

2,77

1,59

34%

Tveir

3,2

0,61

2,85

2,27

64%

Þrír

3,0

0,53

2,95

3,12

2%

Tafla 1 Meðalstærðir stía (m) miðað við fjölda í stíu


Í 27% einshestastíanna var önnur hlið styttri en 142 cm, sem var meðal bollengd sýndra hrossa 2005. Þá kom í ljós að í 81% einshestastíanna var styttri hliðin minni en 180 sm, sem er lágmarksmál í nýrri reglugerð um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa (nr. 160/2006).

 

Loftræsting

Algengasta loftræstikerfið er undirþrýstingkerfi sem var í 22 húsanna. Engin vifta var í 14 tilfellum. Flest hesthúsin voru opinn upp á gátt þegar komið var að þeim í þeim tilgangi að lofta út, samt var bætt loftræsting ekki ofarlega í huga hesthúsaeigenda, þar sem aðeins tveir höfðu áhuga á að bæta loftræstingu. Sú staðreynd að notast var við opnanleg fög líkt og í mannabústöðum og að dreifing inntaka var mjög ójöfn gefur vísbendingar um að skortur sé á þekkingu hins almenna hesthúseiganda á loftræstingu hesthúsa.

 

Undirburður

Í 32 húsum var sag notað sem undirburður en í einu var notaður hálmur í einu var notast við pappír. Þeir sem notuðu sag notuðu allt upp í 4,2 kg á hest á dag en sagnotkun í safnstíum var að meðaltali 2,1 kg á móti 0,7 kg hjá þeim sem mokuðu allt út daglega. Athygli vekur að engin tengsl voru á milli notkunar og stíustærðar.

 

Mynd 2 Sagnotkun í safnstíum


Þegar skoðað var samband hreinleika hestanna við aðra þætti kom í ljós að hreinleiki þeirra jókst einungis marktækt með aukinni sagnotkun. Það sem ekki hafði áhrif á hreinleika hestanna var tíðni útmoksturs, gólfgerð, hreinleiki húsa eða lengd útiveru.

 

Breytingar

Efst í huga aðspurða, þegar spurt var um breytingar, var að auka fjölda af eins-hestastíum en athygli vekur að vinnusparandi þættir s.s. að auðvelda fóðrun voru ekki ofarlega á lista. Þá voru atriði eins og eldvarnir og bætt loftræsting ekki ofarlega í huga manna. Rúmlega þriðjungur af þeim sem voru með bása vildu breyta öllu í stíur en meirihluti vildi halda eftir einhverjum básum.


Annað

Við aðeins fimmtung húsanna voru fleiri en eitt gerði, og var  meðalfjöldi hesta í hvert gerði 12 hestar en fór alveg frá 4 upp í 27.

 

Í 83% tilfella var gefið tvisvar sinnum yfir sólarhringinn en annars var gefið þrisvar sinnum. Saltsteinaaðgangur var aðeins í 68% húsanna, gefið var á stíugólfið í 20% húsanna og fram á fóðurgang í 15% þeirra en algengast var að gefið væri í stalla eða í 67,5% tilfella, í 2 húsum var gefið í net.

 

Í 31 húsi voru engar eldvarnir og þó voru aðeins 1 viðmælendi sem fannst það vera atriði sem mætti betur fara. Þetta vekur verulega athygli í ljós þess hve verðmæti hesta hefur aukist mikið á undanförnum árum.

 

Niðurlag

Greinileg breyting er í þá átt að hestamenn eru farnir að hugsa meira um velferð hestanna sinna, því í yngri húsunum voru stíurnar marktækt stærri en í eldri húsunum. Hinsvegar vildu flestir breyta í einshestastíur. Þetta atriði þarf að rannsaka vel enda eru hestar hjarðdýr og sækja í það að vera saman. Hýsing hesta á húsi þarf að vera heppilegt samspil á milli dýravelferðar og vinnuhagræðis og í því sambandi þarf að skoða vel hvort það henti frekar íslenskum hestum að vera einir í stíu, eða fleiri saman.

 

Sagnotkun er mikil samkvæmt þessari athugun og þörf er á því að finna út hvort önnur efni henti betur. Mór er t.d. efni sem þarf að gera athuganir á við íslenskar aðstæður, því hann brotnar hratt niður eftir notkun og þurrkar mjög vel upp bleytu og bindur ammóníak. Jafnframt stendur nú til boða hör til undirburðar sem þarf að skoða vel sem valkost í þessu sambandi.

 

Eftirlit með ástandi hesthúsa er ábótavant enda kom í ljós í rannsókninni að 39% innréttinga í brutu í bága við þá reglugerð sem gilti þegar hönnun og smíði þeirra fór fram.

 

Huga þarf betur að því að efla fræðslu um loftræstingu í hesthúsum og gera átak í þeim efnum. Engar viftur voru í 35% húsanna og hjá of mörgum var aðal streymi af fersku lofti inn um útidyrahurð á meðan hestar voru út í gerði. Þá voru einungis örfá hesthús með vel hannað loftræstikerfi og ekkert með stýrða náttúrulega loftræstingu. Hesthús er vinnustaður bæði hests og manns og þarf að vera þannig úr garði gert að báðir njóti umhverfisins. Fúlt og rakt loft er eitthvað sem er ekki eftirsóknarvert.

 

Kröfur í íslensku reglugerðinni um aðbúnað hesta eru ekki eins miklar og í nágrannalöndum fyrir samskonar stærð af hestum t.d. í sambandi við stíustærðir og getur það verið vegna þess að kostnaður við byggingu húsa er dýrari hér á landi. Einnig gæti hugsast að íslenskir hestar þoli meiri þrengsli þar sem lausleg könnun  hefur sýnt að lítið er um húslesti þó að þrengra sé á hestum hér á landi en erlendis (Sigurjónsdóttir, 2005). En tíðni húslesta á Íslandi er hvergi skráð og fyrir utan fyrrgrenda athugun þá hefur litið verið gert í því að kanna hana.

 

Ljóst er að húsbyggjendur hafa á undanförnum árum haft takmarkað aðgengi að einstaklingsráðgjöf á þessu sviði, sem er vafalítið meginástæða þess að fjölmargar mismunandi lausnir hafa litið dagsins ljós. Þá eru skoðanir jafnframt afar skiptar um ágæti mismunandi lausna varðandi hönnun á nærumhverfi hesta á húsi.


Heimildir


Hrefna Sigurjónsdóttir. (2005). Könnun á útbreiðslu húslasta meðal hrossa – aðbúnaður skiptir máli. Birt á Fræðaþing Landbúnaðarins 2005.

 


Hross í hollri vist
Bútæknihús Lbhí
www.hesthus.is
hesthus@hesthus.is