Annað:
Stutt lýsing:
Stórvaxinn runni eða lágvaxið tré 3-8 metra hár sem hefur reynst ótrúlega harðgerður eftir að plöntur komast á legg. Hefur reynst mjög viðkvæmur fyrir „stagnasjon“ eins og getið er um í umfjöllun um silfurreyni og á þá til að kala nokkuð og verða margstofna. Þolir klippingu vel eins og flestar tegundir af Aria- deild, en getur þó fengið svæsna reyniátu í eina og eina grein sérstaklega í köldum og rökum sumrum. Er afar blómfagur (bleik blóm) og blómstrar fyrstur allra reynitegunda hérlendis vanalega 1-2 vikum á undan reynivið í fyrstu eða annarri viku júnímánaðar á höfuðborgarsvæðinu. Þroskar stór og fallega rauð ber sem eru mjög eftirsótt af fuglum síðla hausts. Nokkuð djúpstætt rótarkerfi. Í uppeldi þarf að gæta að klippa og mynda einstofna tré því annars vex hann fremur sem margstofna runni. Allur undirbúningur og umhirða þarf einnig að vera góð til að hindra það að nýgróðursettar plöntur fái ekki áfall og „stagneri“ eins og sagt er, þ.e. vaxi lítið sem ekkert í mörg ár og jafnvel koðni niður. Tímasetning útplöntunar skiptir miklu máli í þessu samhengi, ekki ætti að gróðursetja á vaxtartíma.
Athugasemd:
Úlfareynir er talinn apomiktískur þó ber á því í sáningum að ein og ein planta er ekki ekta.
|