Til baka



Númer: 431

Vöktun að Litla-Skarði

Flokkur: Umhverfisrannsóknir     Upphafsár: 1996

Tengiliður: Hlynur Óskarsson       Netfang: hlynur@lbhi.is   
 

Langtíma umhverfisvöktun á vatnasviði að Litla-Skarði í Borgarfirði
 
Árið 1996 hófst umhverfisvöktun í Litla-Skarði í Borgarfirði. Jörðin Litla-Skarð er í eigu Skógræktar ríkisins.  Sjálft vöktunarsvæðið, sem er hluti jarðarinnar, er afmarkað vatnasvið norðvestan við Litlaskarðsfjall, 55 ha að flatarmáli.  Á svæðinu er fjölbreytt landslag og gróðurfar.  Á fjallinu eru mosaþembur, klappir og melar, í vesturhlíðum þess skriður og klettar, en í brekkurótum graslendi. Vestan fjallsins taka við klapparásar, moldarmelar, mólendi, birkikjarr og mýra- og flóasund.
Markmið vöktunarinnar er að ákvarða og segja fyrir um ástand þurrlendis- og ferskvatnsvistkerfa með tilliti til áhrifa loftborinnar mengunar, einkum af völdum köfnunarefnis og brennisteins. Verkefnið býður einnig upp á að meta áhrif ósons, þungmálma og þrávirkra efna á vistkerfi og getur gefið mikilsverðar upplýsingar um vistfræðileg áhrif loftslagsbreytinga og um breytingar sem kunna að verða á líffræðilegri fjölbreytni.  Mikilvægur þáttur verkefnisins er að leggja til vísindalega og tölfræðilega traust gögn sem nota má til líkanagerðar.
Vöktunin er hluti fjölþjóðlegra rannsókna sem fram fara á vegum Efnahagsnefndar Evrópu vegna samnings um hnattræna loftmengun og er vöktun af þessu tagi nú stunduð víðs vegar um Evrópu.
 
 

 
Helstu samstarfsaðilar:
Hollustuvernd ríkisins
Skógrækt ríkisins
Veðurstofa Íslands
Náttúrufræðistofnun Íslands
Vatnamælingar Orkustofnunar