Til baka



Númer: 1568

Húsvist í fjárhúsum á Íslandi

Flokkur: Heilbrigði í framleiðslu og heilnæmar afurðir     Upphafsár: 2010

Tengiliður: Snorri Sigurðsson       Netfang: snorri@lbhi.is   
 

Fjárhúsbyggingar hafa á liðnum áratugum tekið nokkrum breytingum, þó svo að vart sé hægt að tala um byltingar varðandi hýsingu sauðfjár. Að líkindum eru flest fjárhús hér á landi enn með görðum, tiltölulega mjóum króm og einhvers konar grindum/strekkmetal í gólfi.
 
Undanfarinn áratug hafa húsvistarrannsóknir sem slíkar verið frekar takmarkaðar í sauðfjárrækt en meira borið á sértækum viðfangsefnum. Þar má nefna rannsókn á gjafatækni á sauðfjárbúum, sem og rannsókn á reynslu bænda af gjafagrindum, rannsókn á vinnu á sauðburði, vinnuhagræðingu í sauðfjárrækt og rannsókn á fjárhúsgólfum.
 
Engar tilraunir hafa verið gerðar hin síðari ár til þess að ná samræmdu yfirliti um stöðu húsvistar á fjárbúum hér á landi, né að draga saman yfirlit um það hvort og með hvaða hætti framangreind verkefni hafi skilað sér út í íslenskan fjárbúskap.
 
Úrlausnarefni þessa verkefnis er að afla upplýsinga um helstu þætti varðandi húsvist alls sauðfjár á Íslandi, sem og notkun og útbreiðslu vinnuléttandi tækni, nokkuð sem má samþætta og kalla húsvist í fjárhúsum á Íslandi, þ.e. bæði hvað varðar aðbúnað dýra og manna. Í kjölfarið munu verða til verðmætar grunnupplýsingar um húsvist sauðfjár á Íslandi og mikilvægar upplýsingar um vinnuhagræðingu við veigamestu störf á húsi. Þessar upplýsingar eru ekki til í dag og þær munu nýtast fyrir frekara rannsókna- og þróunarstarf, sem og leiðbeiningastörf.